Bioblitz í Reykjavík hefst með plöntuskoðun í Elliðaárdal Ör

 

Verkefnið Bioblitz í Reykjavík hefst formlega laugardaginn 24. júní. Þá verður fyrsti fræðsluviðburður af þremur í sumar, þar sem þátttakendur kynnast lífríki Elliðaárdals og fá tækifæri til að spreyta sig við að greina lífverur til tegunda. Fyrsti viðburðurinn verður helgaður plöntum. Viðburðurinn hefst kl 11 og byrjar við Gömlu Rafveituna við Rafstöðvarveg. Bryndís Marteinsdóttir plöntuvistfræðingur og Snorri Sigurðsson líffræðingur munu kynna gesti fyrir plöntulífi dalsins og aðstoða við að greina og skrá þær tegundir plantna sem finnast. Markmiðið er að finna sem flestar tegundir !!

Gróðurfar er mjög fjölbreytt og gróskumikið í Elliðaárdal. Þar má sjá náttúruleg gróðurlendi af ýmsum toga en einnig er ræktað skóglendi ríkjandi og áhrif garðyrkju og landbúnaðar einnig áberandi. Helstu gróðurlendi í dalnum eru mýrar, mólendi, valllendi og ræktuð tún, blómlendi og skóglendi. Fundist hafa yfir 180 tegundir plantna í dalnum, sem er mjög há tala fyrir eitt svæði á Íslandi en þar eru slæðingar stór hluti, en það eru plöntur sem hafa borist frá manninum t.d. úr nálægum görðum. Mýrar og önnur votlendi eru einkum að finna ofarlega í dalnum nálægt Elliðaánum. Ræktuð tún eru víða, einkum nálægt athafnasvæðum t.d. við Rafstöðina. Stærstu ræktuðu trjálundirnir eru í Árhólmunum, í Sveinbjarnarlundi og Breiðholtshvarfi. Lúpína er nokkuð útbreidd í dalnum.