Bioblitz í Elliðaárdal Ör

Fyrsta Bioblitz-verkefnið í Reykjavík mun fara fram sumarið 2017 og verður stærsta útivistarsvæði borgarinnar í sviðsljósinu en það er Elliðaárdalurinn. Verkefnið er skipulagt af umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur í samstarfi við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Einnig er verkefnið styrkt af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Bioblitz í Elliðaárdal mun samanstanda af fræðsluviðburðum sem eru opnir almenningi þar sem lífveruleit mun fara fram með aðstoð sérfræðinga. Þá verður þessi vefsíða í lykilhlutverki en hún gerir fólki kleyft að skrá inn eigin athuganir og þar með framkvæma sjálfstæða lífveruleit hvenær sem er. Eftir því sem fleiri skráningar safnast inn á vefsíðuna verður hægt að skoða niðurstöðurnar og þannig mun myndast góð heildarmynd um lífríki Elliðaárdalsins.

hringir3

Þrennir fræðsluviðburður verða yfir mitt sumarið þar sem ákveðnir lífveruhópar verða í sviðsljósinu.

Fyrsti viðburðurinn er laugardaginn 24. júní og þá verða plöntur, stórar sem smáar í lykilhlutverki. Líffræðingar munu fræða gesti um íslensku flóruna og um gróðurfar svæðisins og aðstoða við að greina tegundir á vettvangi. Viðburðurinn mun hefjast við Gömlu Rafveituna.

Annar viðburðurinn verður laugardaginn 8. júlí og þá verður sjónum beint upp á við og skimað eftir fuglum. Líffræðingar munu leiða gesti í göngu og að þessu sinni mun viðburðurinn eiga sér stað í ofanverðum Elliðaárdal þar sem vel sést til allra átta og auðveldara að sjá fleiri fugla. Viðburðurinn mun hefjast við Árbæjarkirkju.

Þriðji og seinasti viðburðurinn verður laugardaginn 22. júlí og þá verður leitað að skordýrum og öðrum smádýrum sem mikið er af í Elliðaárdal á þessum tíma sumars. Líffræðingar munu aðstoða gesti við að safna skordýrum og þau verða skráð og greind.  Viðburðurinn mun hefjast við Gömlu Rafveituna við Rafstöðvarveg.

Á hverjum viðburði býðst þátttakendum að skrá þær lífverur sem finnast hverju sinni á sérstök skráningarblöð en einnig eru allir hvattir til að skila sýnum skráningum rafrænt inn á heimasíðu Bioblitz þar sem skráningarnar verða yfirfarnar og niðurstöður þeirra birtar.

Allir viðburðirnir hefjast kl 11 og klárast formlega kl 14 en öllum er frjálst að stunda lífveruleit hvenær sem er og skila inn gögnum á vefsíðuna.