Hvað er Bioblitz Ör

Bioblitz eða Lífveruleit er viðburður eða röð viðburða þar sem upplýsingum um lífverur tiltekins svæðis er safnað saman á einn stað yfir fyrirfram ákveðinn tíma. Allir sem hafa áhuga geta tekið þátt og almenningur og sérfræðingar vinna saman við að finna lífverur og greina þær til tegunda. Þannig skapast mikil þekking um lífríki svæðisins á stuttum tíma og þátttakendum gefst tækifæri að læra um líffræðilega fjölbreytni og leiðir og aðferðir við að finna og greina lífverur.

hringir4

Hægt er að framkvæma lífveruleit hvar sem er, svo lengi sem lífverur finnast á svæðinu. Það getur verið í borgum eða úti í sveit eða villtri náttúru t.d. í þjóðgörðum. Gott er að skilgreina vel hvaða svæði á að taka fyrir. Einnig er hægt að velja sérstaklega ákveðin búsvæði til að skoða t.d. skógarlund, votlendi eða fjöru. Þá má einbeita sér að því að skoða tiltekna lífveruhópa t.d. plöntur, fugla eða skordýr. En ef margir koma að lífveruleitinni er hægt að reyna að skrá allar lífverur sem finnast óháð því hvaða lífverur um er að ræða – allt frá fléttum og sveppum til fugla og spendýra. Stundum er meira segja hægt að skoða örverur ef tækjabúnaður er til staðar.

Upplýsingum er gjarnan safnað saman á einn stað t.d. vefsíðu eins og þessa. Þar má sjá myndir og staðreyndir um lífverurnar sem fundist hafa. Upplýsingar um fundarstaði má einnig sjá á korti og gefur það hugmynd um útbreiðslu þeirra á svæðinu.

Hugtakið „Bioblitz“ hefur fest sig í sessi víða um heim fyrir lífveruleit af ýmsum toga og hægt er að finna fjölmörg velheppnuð dæmi ef t.d. er leitað á veraldarvefnum. Einnig eru til skemmtileg farsímaöpp sem gera notendum kleift að skrá inn upplýsingar um lífverur sem finnast, hvar sem er í heiminum. Dæmi um slíkt app sem mæla má með er inaturalist sem kynnast má betur á þessari síðu www.inaturalist.org og þar má sjá allar skráningar sem hafa átt sér stað en þær eru nú í þúsundatali út um allan heim.